Stórgrýti við Gígjökul

Mikil skriða varð við Gígjökul þegar vatn braust niður úr Eyjafjallajökli eftir að eldgosið hófst. Úr skriðunni komu margir tröllvaxnir steinar og voru klifrarar mjög spenntir yfir að fara að skoða þá og sjá hvort þeir væru klifurhæfir.

Félagarnir Valdimar Björnsson og Benjamin Mokry skruppu fyrir skömmu suður og skoðuðu steinana. Steinarnir eru stórir og mikilfenglegir en þeir henta ekki vel til klettaklifurs. “Hjá steinunum er fullkomin lending, alveg slétt og ekki stórgrýtt” sagði Valdi. “Bergið var hins vegar svolítil vonbrigði, laust í sér og auðvelt að brjóta höldurnar úr því, ekki ósvipað berginu í steinunum í Stóruskriðu við Dyrfjöll á austurlandi”. Aðkoman að svæðinu var góð og mjög gaman að skoða svæðið þó svo að ekki hafi verið mikið klifrað. Félagarnir vara þó við kviksyndum á svæðinu og voru því heldur fengnir að frost var í jörðu.

Gígjökull er einn af tveimur skriðjöklum sem falla úr Eyjafjallajökli og skríða þeir norður í Þórsmörkina. Hinn skriðjökullinn heitir Steinholtsjökull.

 

Leave a Reply

Skip to toolbar