Stuðlagil

Líkt og nafnið gefur til kynna, býður Stuðlagil upp á nær eingöngu klifur á basalt stuðlum. Ætla mætti að gilið hafi nýlega birst eins og skrattinn úr sauðaleggnum ef marka má nýjustu trendin á instagram, en lítið hafði borið á þessu gili þar til um miðjan annan áratug tuttugustuogfyrstu aldar. Heimamenn á Efra Jökuldal hafa hins vegar þekkt til gilsins mest alla tíð, en fyrir tíð Hálslóns hafði Jökla hins vegar mórauð fyllt gilið nær barma á milli og því toppar stuðlanna aðeins gægst í mýflugumynd upp úr beljandi jökulánni. Þegar Jökulsá á Brú var svo virkjuð við Hafrahvamma var henni veitt yfir í Lagarfljót, en við það breyttist þetta forna jökulfljót í lítið annað en himinbláa bergvatnsá. Tæmdust um leið gilin sem áin ólgaði áður niður eftir endilöngum Jökuldalnum, þar með talið Stuðlagil. Gríðarlega formfagrir stuðlar og stuðlarósir príða gilið og lygn áin sem áður klauf sveitir jafn vel og snarbrattir fjallgarðar býður nú einfaldlega upp á róandi nið og kaldan sundsprett fyrir reynda sundkappa. Stuðlarnir eru yfirleitt um 1-2 metrar í þvermál, um það bil 8-15 metrar á hæð og almennt er bergið mjög heilllegt og lítið um lausagrjót. Ólíkt Gerðubergi eru hins vegar sprungur almennt ekki mjög víðar, oft á köflum einungis þunnir saumar þó inn á milli leynist víðari sprungur sem bjóða upp á einhver sprungutök. Hér er hins vegar óvenjuleg áskorun fyrir þá sem hér vilja klifra, en þar sem neðri helmingur stuðlanna hafa í háa herrans tíð staðið undir ólgandi jökulá eru þeir orðnir vel slípaðir og viðnám álíka mikið og á vel bónaðri keilubraut. Ekki nóg með það, heldur í sumum tilfellum hefur Jöklu einnig tekist að fylla einstöku sprungu með jökulaur sem þar hefur svo harðnað, en þar með mætti halda að sumar sprungur hefðu verið kíttaðar saman. Stuðlarnir virðast vera fleiri og hærri Grundarmegin, en hins vegar er aðgengi að þeim erfiðara og oft ekki augljóst hvernig best er að toppa úr leiðunum.

Stuðlagil hefur upp á klifur að bjóða í gríðarlega fallegu umhverfi, en þökk sé Jöklu er klifrið að mörgu leiti frábrugðið öðru stuðlaklifri á landinu. Hér er því lítið í boði af auðveldu klifri, en á hinn bóginn eru eflaust miklir möguleikar í boði fyrir dótaklifur í efri hluta klifurgráðuskalans. Tveir afkomendur Klausturselsmanna áttu leið þar hjá sumarið 2020 og tóku út svæðið, en vegna þessa óvenju stífa klifurs sem kom þeim í opna skjöldu, létu þeir sér nægja að klifra stutta leið í léttari endanum, Klausturselsmegin. Hér eru hins vegar ótal möguleikar í boði af stífum klifurleiðum fyrir íslenskar dótaklifurhetjur framtíðarinnar.

Eins og gefur að skilja leyfa landeigendur ekki boltun (eða aðrar varanlegar tryggingar) með neinu móti á svæðinu, enda eru það ósnortnir hamrar gilsins sem laða að tugþúsundir ferðamanna ár hvert og klifrarar ekki einir í heiminum. Leyfilegt er að klifra Klaustursels megin (þó ekki sé verra að klifra þar í samráði við heimamenn), en hins vegar hefur klifur ekki verið rætt sérstakleg við Grundarmenn, svo nauðsynlegt er að fá leyfi frá þeim fyrst ef klifra á í stuðlunum þeim megin.

Directions

Ef þjóðvegur 1 er ekinn á Jökuldal rétt vestan við Skjöldólfsstaði, er beygt inn á malarveg við Gilsá, sem liggur upp Jökuldalinn í átt að Brú. Tveir möguleikar eru í boði til að komast að Stuðlagili og veltur valið á því hvort ætlunin sé að vera sunnan eða norðan megin við á. Ef á að klifra Klaustursels megin er beygt niður að bænum við Hákonarstaði, þar sem hægt er að leggja á merktum bílastæðum fyrir brýrnar og þaðan er gengin um 4km leið upp með ánni. Ef á að klifra Grundarmegin er ekið lengra upp dalinn þar til komið er að bænum Grund, en þar eru einnig merkt bílastæði og aðstaða. Þaðan er gengið örstutt niður malarhjallann, þar sem er útsýnispallur fyrir ofan stuðlana. Hægt er að klöngrast niður fyrir stuðlana á einhverjum stöðum en mikilvægt er að hafa varann á þar sem reynst getur erfitt og varasamt að komast alveg niður og eitthvað getur verið af lausagrjóti í skorningunum.

Map

Leave a Reply

Skip to toolbar