Uppfærsla

Innskráningarkerfið hefur verið lagað og geta þess vegna allir búið sér til aðgang (loksins) á klifur.is. Ef þú hefur áhuga á því að bæta vefinn, eins og að bæta leiðalýsingu eða bæta inn myndbandi, hafðu þá samband við mig í jafetbjarkar@gmail.com og ég geri þig að Editor. Ég minni á hjálparsíðurnar á Upplýsingar (sjá neðst).

Þá er einnig búið að uppfæra Google kortið inn á Klifursvæði síðunni og kort inn á klifursvæðunum hafa verið virkjuð.

Klifurfréttir eftir Verslunarmannahelgi

Frábært veður var á landinu alla Verslunarmannahelgina (lesist lítill vindur og ekki rigning) og mikið var klifrað víða um land.

Hópur fór í Norðurfjörð til að klifra og setja upp nýjar leiðir. Helgin var vel nýtt og opnaðar voru 6 nýjar leiðir.

Grjótkast – 5.10a
Dalalæða – 5.8
Tyrkjaránið – 5.11a
Baskavígin – 5.9
Þorskastríðið – 5.9
Strengjafræði – 5.7

Einnig voru nokkrar leiðin sem að enn vantaði akkeri eftir seinkun á akkerapöntun. Akkerum var bætt við í: Blómin á þakinu 5.9, Týndu síldina 5.10b/c, Tilbera 5.9 og Nábrækur 5.8. Nú eru því allar leiðirnar í Norðurfirði eins og þær eiga að sér að vera.

Leiðarvísirinn hefur verið uppfærður og myndir lagaðar

Einnig var margt um manninn á Hnappavöllum. Margar leiðir voru klifraðar og náði Björn Baldursson að komast upp Föðurlandið 5.13c, elstur manna.

Klifurfréttir – Júlí 2019

Nú er sumarið í hámarki og klettaklifursvæði landsins iða af lífi.

Norðanmenn klifra mikið í Munkaþverá og hafa augun vel opin fyrir nýjum leiðum. Nýjar sportklifurleiðir sem hafa litið dagsins ljós í Munkaþverá þetta sumarið eru Súlur-Power 5.10b og Þverárbardagi 5.12d.

Fyrr í sumar kom út leiðarvísir fyrir sumar- og vetrarklifur í Búahömrum. Nú hefur þessi leiðarvísir verið uppfærður og telur nú 78 leiðir, 41 klettaklifurleið og 37 vetrarklifurleiðir. Nýjustu útgáfu leiðarvísirsins má skoða hér.

Nýja sportklifursvæðið Kuldaboli í Búahömrum heldur áfram að bæta á sig leiðum. Nýjasta leiðin er úr smíðum Rob Askew og nefnist Eltu hvítu kanínuna 5.9/5.10a.

Stuðlagil norðan Vatnajökuls virðist stefna í að verða næsti instagram viðkomustaður okkar ástkæru ferðamanna. En með svona fallega formuðum og vel veðruðum basalt stuðlum hljóta að vakna upp spurningar hjá klifrurum. Er hægt að dótaklifra þarna? Er þetta frábært klifur? Hver verður fyrstur að prófa? Fallegar myndir frá gilinu má skoða hér og hér.

Nýtt klifurhús hefur opnað í Grundarfirði. Það fékk nafnið Klifurfell, meira um það er hægt að skoða á facebook síðunni þeirra.

Nýtt grjótglímusvæði hefur verið skráð á Akranesi. Svæðið heitir Elínarhöfði og er niðri við sjóinn. Þarna er að finna 7 leiðir og vísa þær allar í Hringjadróttinssögu.

Smyrlabúðir eru nýtt klifursvæði sem er vel nýtt fyrir krakka og byrjendaklifur. Í sumar hafa bæst við tvær boltaðar leiðir í safnið og þrjár grjótglímuþrautir.

Nokkrir íslendingar eru í pílagrímsferð til Rocklands í Suður Afríku. Þeir Andri, Birkir, Egill, Eyþór og Hilmar glíma nú við rauðan sandstein. Allir hafa þeir verið að gera góða hluti og hafa verið að raða inn leiðum á gráðubilinu 7B – 8A (V8 – V11). Til stendur að eyða tveim mánuðum í Suður Afríku, svo að drengirnir eru ekkert á leiðinni heim á næstunni.

Að endingu viljum við minna alla klifrara sem nýta sér klifursvæði á Íslandi (ekki bara Hnappavelli) til að borga í boltasjóðinn.

Greitt er inn á: 111-26-100404 kt: 410302-3810, skýringin: BOLTASJ.

Sjóðurinn er notaður til þess að endurbolta gamlar leiðir, bolta nýjar og viðhalda aðstöðu á klifursvæðum landsins. Þetta kostar einungis 1500 kr á ári og þjónar einnig sem árgjald á besta klifraratjaldsvæði landsins á Hnappavöllum. Gjöf en ekki gjald!

Klifur í Valshamri


Vegna ábendinga frá stjórn sumarhúsaeigenda í Eilífsdal er rétt að ítreka fyrir klifrurum sem koma með hunda að hafa stjórn á þeim, hafa þá helst í bandi og láta þá ekki gelta óstjórnanlega. Minnum einnig á að það á ekki að ganga upp að hamrinum gegnum sumarhúsaland heldur út með girðingunni, tekur enga stund og er bara góð upphitun.
Höldum friðinn, sýnum tillitssemi og höldum áfram að klifra í Valshamri.


Due to complaints from landowners in Elífsdal please keep your dogs under control, minimize barking and preferably keep them on a leash.
Also, when walking up to the cliff do not go through private land. Take the path running along the fench. It´s a short walk and a good warm up.
Lets keep the peace and keep on climbing in Valshamar.

Boltaðar leiðir í Akrafjalli sumarið 2016

hamarinn

Í sumar voru boltaðar nokkrar leiðir í Akrafjalli, rétt fyrir ofan Akranes (um 45 mín frá Rvk). Leiðirnar eru fjórar og allar í sama hamri, fyrir utan eina staka leið, en í hamrinum hefur verið klifrað í nokkurn tíma í ofanvaði. Nú hafa leiðirnar verið boltaðar og sett sigakkeri, sem auðvelt er að nálgast að ofan fyrir þá sem vilja klifra í ofanvaði. Mælt er með að klifra með hjálm í hamrinum og forðast að klifra lang út fyrir boltalínu þar sem eitthvað er um laust og sprungið grjót.

Í hamrinum eru fjórar leiðir boltaðar.

“Hreiðrið 5.10c/d”. Byrjar á brölti upp stall, takið varlega í grjótið. Leiðin hefst fyrir alvöru á sléttum vegg á litlum köntum og tæpum fótum. Powerhreyfing í geðveikt undirtak og svo eru nokkrar tæpar hreyfingar til viðbótar upp að litlu þaki og yfir það. Eftir það er smá slabb, kantar og fótavinna. Orginal leiðin er hugsuð beint upp feisið án þess að taka út fyrir hornin hægra eða vinstra megin og ekki nota stóru juggarana í hliðunum (áberandi góð tök). Ef allt er notað er leiðin mun léttari, 5.10a. En endilega smakkið á henni og gefið álit. 9 boltar í leiðinni. Fyrst leidd af Þórði Sævarssyni sem boltaði ásamt Sigurði Tómasi Þórissyni.

“Varðmenn spýjunnar”, 5.5. Dregur nafn sitt af varðmönnum í Fýlslíki sem spúa eldi og brennistein á alla sem komast upp í miðja leið. Ekki freistast langt út úr leið. Leiðin byrjar í skemmtilegu yfirhangi á góðum juggurum. Við tekur slabb (framhjá hreiðrunum) sem lýkur á góðum stalli. Eftir það er þægilegt klifur upp í topp. Þéttboltuð leið, góð byrjendaleiðsla.
“Írskir dagar”, 5.5. Þægileg leið upp smá stall. Krúxið er að vippa sér upp á slabbið en þar stendur maður mjög vel í góðri brekku. Eftir slabbið er létt klifur beint upp eftir boltalínunni. Var boruð og boltuð á Írskum dögum, bæjarhátíð Akurnesinga.
“Ljótur álfur”, 5.8. Leiðin er gömul og var boltuð af félögum úr Björgunarfélagi Akraness. Leiðin byrjar á slabbi og upp í góða hvíld undir litlu þaki. Áfram yfir þakið á litlum köntum og jafnvægishreyfingum. Endar á þægilegum tökum upp í topp.

Norðan við bílastæðið er ein stök leið boltuð.

“Stjakinn 5.11a”. Grjótglímuþraut í leiðslu, þrír boltar og eitt auga og setja sling utan um grjótið efst fyrir akkeri, þægilegt að ganga í að ofan. Ber nafn sitt af grjóti sem stendur upp úr jörðinni og líklegt til að stjaksetja þá sem detta. Tryggjari þarf að vera vel vakandi. Byrjar vinstra megin í góðri flögu og fer vinstra megin upp eftir sprungum, grípið varlega. Þverar til hægri undir yfirhangið og svo upp hægra megin í dýrðlega holu sem er eins og einhver hafi mótað hana í höndum. Toppar svo með látum. Töff leið. Þórður Sævarsson boltaði og leidd fyrstur.

Bendi áhugasömum á að skoða leiðavísi fyrir Akrafjall: https://drive.google.com/file/d/0Bwig2xc5HxGybGVNZmhadGl1dE0/view

Stóra lekamálið í Klifurhúsinu

Veðrið fór varla fram hjá neinum í gærkvöldi. Stóru gluggarnir bakvið veggina í Klifurhúsinu þoldu augljóslega ekki þetta veður og fóru að mígleka með kvöldinu. Sem betur fer voru menn á staðnum sem tókst að redda málunum á frumlegan hátt.

Myndir frá Andra Már og Eyþór.

Með því að setja upp stórann plastdúk fyrir aftan vegginn tókst að leiða vatnstrauminn (sem var skuggalega mikill) í átt að brunastiganum þar sem komið var fyrir stórum fötum til að grípa vatnið.

Þessu hefur verið bjargað í bili og Klifurhúsið er í fínu lagi eftir nóttina. Það er þó augljóst að gera þarf við gluggana í húsinu og eflaust þakið líka.

298 klifurleiðir á Hnappavöllum

Klifurnördar

Í dag tókum við Jafet, Eyþór og Jonni gott session og settum inn allar klifurleiðir sem skráðar eru í Hnappavalla Klifurhandbókinni eftir Jón Viðar og Stefán Steinar. Allar klifurleiðir úr leiðarvísunum hans Sigga Tomma (Gerðuberg, Munkaþverá, Stardalur og Valshamar) hafa einnig verið skráðar.

Þegar klifursvæðin eru borin saman sést að Hnappavellir er lang stærsta klifursvæðið okkar þar sem eru núna skráðar 298 klifurleiðir. Það næst stærsta er Stardalur með 87 klifurleiðir og svo Jósepsdalur með 76 leiðir. Það á hins vegar eftir að skrá leiðir úr Vestrahorni þar sem eru um 200 klifurleiðir. Samtals eru núna 812 klifurleiðir skráðar á Klifur.is.

Með því að hafa allar klifurleiðirnar skráðar í tölvutæku formi getum við loks auðveldlega talið leiðirnar á Hnappavöllum en leiðirnar 298 skiptast svona:

  • Grjótglíma: 139
  • Sportklifur: 138
  • Dótaklifur: 21

Þetta er held ég stórt skref fyrir litla klifursamfélagið okkar á Íslandi. Þessar upplýsingar sem við höfum safnað saman í gegnum árin eru það sem gerir klifrið á Íslandi eins skemmtilegt og það er og nú hefur aðgengið að þessum upplýsingum aldrei verið betra. Með allar þessar klifurleiðir skráðar á sama stað er auðvelt að uppfæra stóru klifursvæðin og klifrarar geta farið og upplifað ný klifursvæði án þess að það þurfi að vera til prentaður leiðarvísir. Nú er bara að byrja að skipuleggja næsta sumar. Er ekki eitthvað klifursvæði sem þú átt eftir að skoða?

Ég get ekki sett inn þessa grein fyrr en ég hef þakkað leiðarvísasmiðunum fyrir að vera súper nettir á að leyfa okkur að nota allar upplýsingarnar sem þeir hafa sett svo mikla vinnu í að safna saman. Takk kærlega!

Uppfærsla – Klifur.is 6.2

Eingin smá uppfærsla á Klifur.is í dag. Núna geta allir notendur Klifur.is sett hvaða klifurleið sem er inn á lista. Það eru þrír listar í boði: Uppáhalds, klárað og verkefni (favorites, finished and projects).

user_buttonsÞegar þú ert búinn að setja inn leiðir á einhvern lista getur þú fundið leiðina aftur með því að klikka á einn takka. T.d. ef þig langar til að sjá allar leiðir sem þú ert búinn að klára þá klikkar þú bara á “Finished” takkann. I am super seriously. Þú getur valið leiðir alveg eins og þig langar t.d. ef þig langar að sjá öll þín Projects á Hnappavöllum þá er það ekkert mál.

Það sem væri hægt að gera í framhaldi að þessu er að notendur gætu séð hversu mikið í % maður er búinn með af ákveðnu klifursvæði. Svo væri kannski hægt að raða leiðum (og klifursvæðum) eftir því hversu margir hafa sett leiðina í Favorites lista. Möguleikarnir eru endalausir.

En bara go nuts og prófið þetta. Megið endilega láta mig vita hvað ykkur finnst.

Sjáumst á klifurmótinu!

Uppfærsla – Klifur.is 6.1

Þá hefur síðan verið uppfærð. Það helsta í þessari uppfærslu er að bæst hefur við einn möguleiki þegar sett er inn nýja leið. Það er “Stone” þar sem er hægt að setja númer steins ef steinar hafa verið númeraðir á svæðinu. Þetta á t.d mjög vel við í Jósepsdal og á Hnappavöllum þar sem það getur verið mjög erfitt að finna rétta steininn í Jósepsdal og á Hnappavöllum geta sectorar verið mjög stórir. Þegar klikkað er á eina leið munið þið svo sjá allar aðrar leiðir sem eru skráðar á sama stein eða sector.

Önnur stór uppfærsla er í “Problems” síðunni þar sem nokkrir valmöguleikar hefur verið bætt við til að gera það auðveldara að finna réttu leiðina. Og það er hægt að velja “thumbnail view”. OMG hvað það er svalt.

Þetta er held ég skref í rétta átt með þessa síðu. UP NEXT: Graphs, favourites, finished… Spennandi.

Klifur.is opnar á ný

klifurisJæja, þá er Klifur.is loksins komin upp aftur. Síðan hefur verið byggð alveg frá grunni og er hún núna betri, hraðari og öruggari en áður. Eins og þið sjáið hefur Klifur.is fengið nýtt útlit og skipulagið hefur einnig breyst.

Markmiðið með þessari breytingu er að gera síðuna einfaldari en einnig gagnlegri. Auðveldara er að setja inn nýtt efni en áður og hver sem er getur bætt við nýrri klifurleið, myndum, fréttum og fleiru.

Með nýju skipulagi í klifursvæðum og klifurleiðum (Crag og Problems) er hægt að nota Klifur.is sem góðan leiðarvísi fyrir fyrir hvaða klifursvæði sem er á Íslandi. Nú þegar eru komnar yfir 200 klifurleiðir á Klifur.is og á þeim eftir að fjölga hratt á næstu dögum. Langtímamarkmiðið er að á Klifur.is verði skráð hvert einasta klifursvæði og klifurleið á Íslandi. Ef þú veist um eitthvað sem vantar á Klifur.is máttu endilega bæta því við.

Að lokum vil ég þakka Eyþór, Egil, Jonna og Andra klifurhetjum fyrir gott framtak á sunnudaginn þar sem við settum inn 156 klifurleiðir á Klifur.is.

Hnappavellir Boulder er til

kominn_utKlifurhandbókin Hnappavellir Boulder er loks komin út. Þetta er þriðji grjótglímu leiðarvísirinn í þessari handbókaseríu. Bókin er græn að þessu sinni og hefur þetta aldrei verið betra, bókin er þykkari, inniheldur fullt af leiðum og allar myndir eru í lit. Þvílík snilld.

Í Hnappavellir Boulder eru 140 klifurleiðir á Hnappavallahömrum og Salthöfða.

Leiðarvísirinn fæst í Klifurhúsinu á 1800 krónur.

Valshamar.is

Ný heimasíða hefur verið sett upp en hún heitir valshamar.is. Þar getur þú séð veðurspá fyrir svæðið og vefmyndavél sem uppfærist á 5 mínútna fresti.

Á síðunni er hægt að sækja leiðarvísinn fyrir klifursvæðið og einnig myndir af klettunum í hárri upplausn með sportklifurleiðunum merktum.

(Takk Hákon Gíslason)

450 metrar, takk fyrir!

heroes2Ný klifurleið hefur verið opnuð á Vestrahorni og er hún 450 metrar á hæð. Leiðin sem hlaut nafnið Boreal er 11 spannir og er sú erfiðasta 5.7.

Það voru Snævarr Guðmundsson og Guðjón Snær Steindórsson sem settu upp leiðina en þetta er önnur leið þeirra félaga á Vestrahorni. Verið viss um að gefa þeim klapp á bakið fyrir frábært afrek.

Boreal hefur verið í vinnslu síðustu 2-3 ár og er hún nú full boltuð og klár.

Hetjur gleymast aldrei

Wolfgang GüllichÍ dag, 31.ágúst 2012, eru liðin 20 ár frá því að klifurgoðsögnin Wolfgang Güllich dó. Güllich var hvað þekktastur fyrir djörf “free solo” sín, en hann var einnig mikill frumkvöðull a sviði sportklifurs.

Güllich á heiðurinn af fjöldanum öllum af erfiðum leiðum og var hann til að mynda fyrstur til að klifra leiðir af gráðunum 8b (1984), 8b+ (1985), 8c (1987) og 9a (1991). Þekktasta klifurafrek hans er almennt talið vera leiðin Action Directe 9a í Frankenjura, en til að klifra hana þróaði hann sérstaka æfingatækni sem í dag gengur undir heitinu Campus. Leiðin er enn þann dag í dag talin vera í hópi erfiðustu leiða heims.

Güllich og StalloneHann fékk hlutverk í kvikmyndinni Cliffhanger sem áhættuleikari Sylvester Stallone þar sem hann framkvæmdi klifuratriði myndarinnar.

Wolfgang Güllich lést 31 árs að aldri af völdum bílslyss í Þýskalandi.

Valdimar búlderar 8A

Valdimar Björnsson hefur klifrað búlderprobban Olivine og gefið honum gráðuna 8A. Leiðin er staðsett á Hnappavöllum og gerir þetta hana að einum af erfiðustu búlderprobbum Íslands. Á 8A prófílnum sínum segir hann: “8A vegna þess að það tòk mig àr að klàra hann og með um 100 tilraunir.” ,og þar sem Valdi er nú þekktur fyrir að klifra hluti frekar fljótt og auðveldlega er deginum ljósara að þessi leið er í erfiðari kantinum.

Skip to toolbar