Búnaður

Klifurskór (klifurtúttur)

klifurskórSérhannaðir klifurskór eru venjulega notaðir í klettaklifri. Til að auka grip fótanna við klettinn er notað gúmmí sem hylur skóinn að utan. Klifurskórnir eru venjulega aðeins nokkurra millimetra þykkir og smellpassa utan um fótinn. Best er að versla sér frekar litla klifurskó því auðveldara er að stíga á litlar fótfestur ef klifurskórnir eru þröngir. Klifrarar láta stundum endursóla gömlu klifurskóna sína til að minnka kostað.

Karabína

KarabínaKarabínur eru hringlaga tól úr málmi og eru notaðar til ýmissa tenginga. Á þeim er opnari sem er haldið aftur með fjöður. Áður fyrr voru karabínur yfirleitt úr stáli en í dag eru karabínur notaðar í klettaklifri nánast eingöngu búnar til úr léttri álblöndu. Karabínur úr stáli eru sterkari en mun þyngri. Þær eru oft notaðar af fallhlífarstökkvurum og leiðbeinendum með hópa.Til eru margar útfærslur af karabínum en þeim má aðallega skipta í tvo flokka, læstar og ólæstar. Á læstum karabínum er öryggi til að koma í veg fyrir að þær opnist ekki óvart. Læstar karabínur eru notaðar í mikilvægar tengingar þar sem ekkert má klikka. Ólæstar karabínur eru t.d. notaðar í tvista.Karabínur eru til í alls konar útgáfum eins og karabínur með víropnara, beygðan opnara og beinan opnara. Opnararnir hafa mismunandi styrk og tilgang. Flestar karabínur eru framleiddar með beinum opnara. Karabínur með beygðum opnara og víropnara er yfirleitt að finna á tvistum og er til að auðvelda klifrurum að klippa klifurlínuna í tvistinn.

Tvistur

tvisturTvistar eru notaðir af klifrurum til að tengja sig í bolta, akkeri eða aðra tryggingu. Tvistar eru samansettir úr tveimur ólæstum karabínum og stuttu sérsaumuðu vínilreipi. Í sumum tilfellum getur verið hentugt að lengja tvista með því að taka vínilbandið af og setja sling í staðinn.Karabínan sem er hugsuð til að klippa í bolta er með beinan opnara til að minnka líkurnar á að hann klippist úr boltanum. Á hinum endanum er karabína með beygðum opnara eða víropnara til að auðvelda klifraranum að klippa línuna í tvistinn.

Klifurbelti

KlifurbeltiKlifurbelti eru notuð til að tengja persónu við klifurlínu. Flest klifurbelti eru sett utan um mittið. Klifurbelti hafa yfirleitt lykkjur saumaðar á fyrir klifurbúnað.
Til eru margar tegundir af klifurbeltum sem þjóna mismunandi tilgangi. Það eru t.d. belti fyrir krakka sem ná yfir axlirnar, belti fyrir fjölspannaklifur sem eru mýkri og þægilegri og belti fyrir fjallgöngumenn sem eru léttari og nettari.

Klifurlína

KlifurlínaKlifurlínur eru settar saman úr kjarna og ytra lagi (kápu). Kjarninn gefur um 80% styrk línunnar en kápan sem er fléttuð saman er hugsuð til að gera hana betri í meðhöndlun.
Hægt er að skipta klifurlínum í tvo flokka, dínamískar og statískar línur. Dínamískar línur eru teygjanlegar og henta vel fyrir fólk í klettaklifri. þær mýkja fallið fyrir klifrarann og álag á allan búnaðinn minnkar. Statískar línur eru yfirleitt sverari og teygjast mun minna. Þær eru helst notaðar til að síga niður kletta og í fjallgöngur.

Átta

ÁttaÁtta er búnaður hannaður fyrir sig. Til eru áttur sem er hægt að nota til að tryggja klifrara í línuklifri en yfirleitt henta þær illa þar sem þær taka illa föll og erfitt er að draga línuna í gegn.
Með áttu hefur maður góða stjórn og mikinn hraða þegar verið er að síga.

Túba

TúbaTúba er notuð í klifri til að tryggja klifrara. Klifurlínan er þrædd í gegnum túbu og karabínu sem veldur viðnámi og án mikillar fyrirhafnar er hægt að læsa línunni og stöðva fallandi klifrara. Túbu er einnig hægt að nota til að síga niður kletta.

Nokkrar útfærslur eru til af túbunni en þær virka nánast allar eins

Grigri

grigriGrigri er sérhannað fyrir klettaklifrara og virkar mjög svipað og túba. Línan er þrædd í gegnum tækið sem er svo læst með karabínu. Ólíkt túbunni læsir grigri sér sjálfkrafa þegar togað er snögglega í línuna.
Grigri er vinælt tryggingartól meðal klifrara enda vandað og öruggt. Helstu gallar er hversu dýrt það er og einnig er hætta á því að línan sé þrædd í öfuga átt en þá getur skapast smá hætta.

Hneta

HnetaHnetur eru einfaldlega málmkubbur fastur við vír. Þetta eru tól til að búa til tryggingu í klett. Henni er komið fyrir í sprungu og svo er togað í þar til hún situr föst. Klifurlínan er svo fest við vírlykkjuna með karabínu eða tvist.

Hnetulykill

HnetulykillÞegar hnetur hafa tekið fall standa þær oft pikkfastar í klettinum. Þá er gott að hafa hnetulykil til að losa hnetuna úr sprungunni.

Vinur

VinurVinur samanstendur úr þremur eða fjórum kambhjólum sem er komið þannig fyrir á einum eða tveimur öxlum, að þegar togað er í vír sem tengist við öxulinn þrýstast kambhjólin í sundur. Togað er í lítið skaft sem er utan um vírinn og fara þá kambhjólin saman svo hægt sé að koma þeim fyrir í sprungu eða vasa í klettinum. Þá er skaftinu sleppt og spennast þá kambhjólin sundur með fjöður og helst hann þannig fastur á sínum stað. Eftir því sem togað er fastar í vininn því fastar þrýstir hann sundur í klettinn. Klifurlínan er fest við vininn með karabínu eða tvist.

Kalk

kalkKalk er fínt duft sem eykur grip með því að drekka í sig svita. Kalk inniheldur aðallega magnesíum karbónat en einnig er oft sett út í það magnesíum súlfat sem gerir þurrkinn meiri.
Á svæðum þar sem rigning er fátíð eða klettar eru í skjóli frá rigningu getur kalkið safnast upp í vinsælum klifurleiðum. Af þeim ástæðum er kalkið stundum umdeilt þar sem það þykir ekki falleg sjón. Komið hefur verið til móts við þetta vandamál með því að bjóða upp á litað kalk sem er í sama lit og klettarnir á svæðinu. Þetta er ekki vandamál á Íslandi.

Kalkpoki

KalkpokiKalkpoki er yfirleitt settur utan um mittið og þannig getur klifrari kalkað hendurnar í miðri leið og aukið gripið.
Til eru stærri kalkpokar en þeir eru aðallega hugsaðir fyrir grjótglímu. Þeir eru geymdir á jörðinni meðan klifrarinn fer í klettinn.

Hjálmur

HjálmurHjálmurinn er mikilvægur öryggisbúnaður. Hann ver höfuðið fyrir höggi og fallandi hlutum. Í klifri er alltaf smá hætta á að reka höfuðið í þegar klifrari dettur.
Þegar klifrað er í ísklifri eða klettaklifri þar sem mikið er af lausum steinum er mjög mikilvægt að nota hjálm, sérstaklega fyrir þann sem er fyrir neðan að tryggja.

Dýna

Dýna,,Boulder-dýna” er notuð í grjótglímu til að mýkja lendinguna við fall. Þær eru oftast gerðar úr 4-10 cm. þykku frauði sem er pakkað inn í sterkan dúk. Á dýnum eru oftast handföng og þeim er auðvelt að pakka saman til að auðvelda flutning.

SlingurSlingur

Slingur er sterk ól sem er saumuð saman og myndar lykkju. Sling er hægt að setja utan um stein til að búa til tryggingu, nota með öðrum klifurbúnaði og margt fleira. Slingar eru stundum notaðir til að lengja tvista.

Dísuhlekkir

DísuhlekkirÞessi búnaður er svipaður og slingur nema hann er saumaður samann á nokkrum stöðum og myndar þannig borða með mörgum minni lykkjum. Dísuhlekkir (dasy chain) er aðallega notaðir í fjölspannaklifri til að tengja klifurbelti við akkeri. Klifrarinn getur þá notað lykkjurnar til að stilla fjarlægð sína frá klettinum.

Burstar

BurstarÍ klifri eru burstar notaðir til að þrífa kalk úr leiðum og önnur óhreinindi. Í inniklifri safnast oft upp kalk á gripunum og þá getur verið gott að pússa aðeins af til að fá betra grip. Í útiklifri þarf einnig stundum að hreinsa leiðir en þá er það yfirleitt mosi, sandur eða ryk.
Burstarnir eru yfirleitt með mjúkum hárum (ekki ósvipaðir tannburstum) en einnig er hægt að fá sér vírbursta. Vírbursta notar maður aðeins á mestu óhreinindin eins og þegar leið hefur ekki verið klifruð og mikill mosi og gróður er á klettinum.

Júmmari

JúmmariJúmmari er notaður til að hífa sig upp reipi. Júmmarinn er settur utan um reipið og læstur með karabínu. Reipið rennur þá í gegn aðra áttina en læsist þétt um línuna þegar togað er í hina. Júmmarinn er fyrst festur í klifurbeltið með t.d sling og svo settur utan um línuna og svo læstur með karabínu. Tveir júmmarar eru venjulega notaðir til að hífa sig upp línu.
Til er önnur tegund af júmmara. Sá hefur þann eiginleka að línan getur runnið í báðar áttir en þegar kippt er snöggt í línuna þá læsist hún.

Leave a Reply

Skip to toolbar