Nýr leiðarvísir

Klifursvæðið á Hnappavöllum heldur áfram að stækka og Jón Viðar, höfundur Hnappavallaleiðarvísisins hefur nú sent frá sér viðbót við hann. Í þessari viðbót tekur Jón Viðar saman allar þær leiðir sem bæst hafa við á árunum 2008 og 2009.

Í leiðarvísinum er farið yfir helstu viðburði á síðastliðnum árum, afrek klifrara tekin saman og tekið er fyrir framkvæmdir á svæðinu.

Hægt að sækja leiðarvísinn með því að smella á myndina.

Nafnlausa svæðið

Byrjað var að klifra á nýfundnu klifursvæði í sumar. Klifursvæðið var talið vera í Sýrfellshrauninu en eftir að hafa skoðað kort af Reykjarnesinu kemst Jón Viðar Sigurðsson að því að Sýrfellshraunið er mun lengra í suð-austri. Eins og staðan er núna er ekki vitað með vissu hvað kalla á þetta klifursvæði. Tjaldstaðagjá er nálægt klifursvæðunum en klifursvæðið er staðsett á hrauni sem á sínum tíma lak úr gíg á Sandfellshæð. Ef einhver þekkir vel til svæðisins væri vel þegið að fá upplýsingar.

 

Með greininni læt ég til gamans fylgja með kort sem ég fékk sent frá Jóni. Á kortinu eru klifursvæðin merkt með rauðum punktum.

Klifurmót á Laugarvatni

Óformlegt klifurfélag Laugarvatns hélt á dögunum klifurmót fyrir nemendur Háskólans á Laugarvatni og Menntaskólans á Laugarvatni. Klifrað var á vegg björgunarsveitarinnar Ingunnar. Keppnisfyrirkomulagið var þannig að klifraðir voru fimm léttir probbar og tveir efstu í karla og kvennaflokki fengu svo að glíma við tvö aukaprobba í bráðabana.

 

Keppnin var hörkuspennandi í karlaflokki en svo fór að Loftur Gísli Jóhannesson sigraði í bráðabana. Í kvennaflokki var keppnin aldrei spennandi en Maríanna Þórðardóttir skildi aðra keppendur eftir og var sú eina sem lauk við fjóra af fimm byrjunarprobbunum. Doddy sá um skipulagningu og uppsetningu leiða.

 

Laugvetningar binda vonir við að áhugi klifrara á svæðinu aukist og að veggurinn góði fái meiri notkun. Haustið byrjar rólega en vonandi verður hægt að halda úti góðu starfi á veggnum í vetur. Hugmynd er um að halda klifurmót eftir áramót og bjóða þá Klifurhúsinu í kaffi og klifur. Hvetjum klifurapa landsins til að kíkja í heimsókn og skoða aðstæður.

Hraðaklifurmót á Höfðatorgi

Hraðaklifurmótið var haldið á menningarnótt í fyrsta skipti. Þó nokkrir mættu til að taka þátt í mótinu og var einnig töluvert af áhorfendum. Klukkan 2 fór fólkið að tínast að og fékk að prufa leiðirnar áður en mótið byrjaði. Tveir og tveir kepptu í einu og sá Sigmar Vilhjálmsson (rauðhærði gaurinn úr Simmi og Jói þættinum) um að lýsa leikunum. Hann stóð sig eins og hetja og fræddi fólkið um köngulóastellinguna og áttuhnútinn.

 

Eftir að allir höfðu klifrað var farið í undanúrslit þar sem tvær stelpur og fjórir strákar kepptust um hinn eftirsóknarverða Höfðatorgsbikar. Eftir seinni umferðina var tími klifraranna lagður saman og höfðu þá Jafet Bjarkar og Lóa Björk sigrað.

 

Fólk var sammála því að þetta hafi verið frábær skemmtun og gaman hafi verið að klifra vegginn sem var nokkuð strembinn. Keppnin um Höfðatorgsbikarinn er ætlað að vera árlegur viðburður og verður hún þá haldin aftur að ári liðnu.

Klifur á Höfðatorgi

Stórviðburður mun eiga sér stað á Höfðatorgi á Menningarnótt, en þá munu allir bestu og hörðustu klifrarar landsins koma saman og keppa í hraðaklifri. Í keppninni sem er á vegum Klifurhússins verður klifrað á einum turninum á Höfðatorgi sem er 7 hæðir og 25 metrar. Skráning fer fram á Höfðatorgi fyrir keppni. Skilyrði er að vera vanur klifrari.

 

Menningarnóttin sem að vana er á 22. ágúst er að þessu sinni tileinkuð húsunum í borginni og af því tilefni verðu turninn sjálfur opinn almenningi sem getur skellt sér á nítjándu hæð og skoðað útsýnið.

Hnappavallamaraþon

Jæja, þá er Hnappavallamaraþoni 2009 lokið og ekki er hægt að segja annað en að þetta hafi verið frábærlega vel heppnað. Maraþonið byrjaði á slaginu hálft 10 á laugardagsmorgunn og kláraðist sólarhringi seinna á sunnudegi. 5 lið höfðu skráð sig í kapphlaupið mikla, hvert lið með sitt markmið sem voru af ýmsum toga eins og að klifra flesta lengdarmetra eða klifra allar leiðir í sömu erfiðleikagráðu.

 

Á meðan maraþoninu stóð var klifrurum boðið upp á ís, grill, kökur og svo morgunkaffi eftir maraþonið. Þreyttir klifrarar fengu að hvíla lúin bein en svo var farið í verðlaunaafhendingu. Lið sem kallaði sig 1993 og samanstóð af Kjartan, Andra, Rakel og Kára, stóð uppi sem sigurvegari maraþonsins. Markmið þeirra var að klifra allar leiðir sem settar voru upp 1993.

 

Gaman er að minnast á það að á meðan á Hnappavallamaraþoninu stóð var þáttagerð í gangi. Verið er að mynda þætti sem verða sýndir í sjónvarpinu fljótlega. Þættirnir eru um útivist á Íslandi og verður þessi þáttur sérstaklega um klifur.

Klifur.is uppfærð

Unnið hefur verið hörðum höndum og nú hefur stórum áfanga verið náð í þróun Klifur.is. 18 kort hafa verið búin til af klifursvæðum víðs vegar um Ísland. Þetta gerir fólki kleift að sjá staðsetningu klifursvæða nokkuð nákvæmlega. Markmið Klifur.is er að búa til nokkuð ítarlega síðu um öll klifursvæði landsins með myndum, leiðarvísum, leiðarlýsingu og öðrum upplýsingum um svæðið sjálft. Þetta boðar alls saman mjög gott og þið eigið von á góðu : )

Opnun Klifur.is

Nú hefur heimasíða fyrir íslenska klifursamfélagið verið formlega opnuð. Markmið okkar er að þessi síða gagnist klifrurum sem samskiptaleið og upplýsingamiðill. Núna er síðan á grunnstigi og munum við uppfæra hana jafnt og þétt. Við vonumst til þess að þetta verði lifandi og góður vettvangur fyrir klifrara til að skiptast á skoðunum og afla sér upplýsinga. Í sumar verður helsta verkefni okkar að safna saman upplýsingum um klifursvæði víðs vegar um landið og gera þær aðgengilegar á vefnum. Einnig munum við gefa út leiðarvísa á prenti fyrir stærstu klifursvæði landsins. Gleðilegt klifursumar! Jafet og Elmar

Kjarri klifrar Fantasíu

Kjartan Jónsson fór með nokkrum vöskum klifrurum á Hnappavelli í vikunni sem leið og voru þau að máta sig í margar af erfiðari leiðunum á Völlunum. Það sem hæst bar á góma var þegar Kjartan kláraði Fantasíu 5.13a. Leiðin var sett upp af Bjössa fyrir rúmum tíu árum og hafa Hjalti Rafn, Þórarinn, Valdi og Kjartan (Björnssynir) og Kristján einnig klifrað leiðina.

Useful

Um klifur

Grjótglíma
Sportklifur
Dótaklifur

Klifurveggir

Klifurveggir eru tilbúnir veggir með gripum fyrir hendur og fætur til að klifra á. Klifurveggir eru gerðir úr krossviðarplötum eða öðru sambærilegu efni. Á plötunum eru göt með skrúfgangi til að festa gripin á. Gott er að byrja á því að æfa sig á klifurvegg áður en farið er út að klifra á klettum.

Klifurhúsið
Björk
Laugarvatn
Súlur
Þórshöfn

Annað

Búnaður
Leiðarvísar
Vegalengdir
Gráðutafla

Linkar
Orðabók

Skip to toolbar